Sunnudagurinn 27. september

Í síðasta tíma fór eldri hópurinn yfir alla bókstafina og voru íslensku bókstafirnir sérstaklega teknir fyrir. Krakkarnir lásu upphátt nokkrar línur úr Gralla gorm og gekk það mjög vel - ótrúlega klárir krakkar! Þá skrifuðu krakkarnir í vinnubækurnar sínar orð sem byrja á íslenskum stöfum eða teiknuðu myndir af hlutum sem byrja á íslenskum stöfum. Einnig gerðum við orðaverkefni þar sem að myndir og orð voru tengd saman. Í lok tímast horfðum við á brot úr þætti Ævars vísindamanns. Þá svöruðu börnin spurningum varðandi hvað fór fram í þættinum og voru erfið orð úr þættinum rædd og útskýrð. Í næsta tíma verður fjallað um daga, mánuði, árstíðir, tölur og afmæli. 

Yngri hópurinn rifjaði upp efni síðasta tíma en þá lærðum við íslensku heitin á öllum litunum. Við hlustuðum aftur á lagið um litina með Skoppu og Skrítlu. Síðan æfðum við okkur að telja á íslensku. Ljóðabókin Talnakver eftir Þórarinn Eldjárn var lesin og þá hlustuðu allir rosalega vel og hjálpuðust að við að telja allt sem var á fallegu myndunum í bókinni. Í lok tímans unnu krakkarnir teikniverkefni þar sem reyndi á að þekkja bæði litina og tölurnar. Í næsta tíma munum við rifja upp tölurnar með því að fara í bingó og svo ætlum við að læra um líkamann.

Næsti tími verður sunnudaginn 11. október, sjáumst þá hress!

                                                                       ekkert stress...bless!